Isaiah 41

1Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við. 2Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi, 3svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum? 4Hver hefir gjört það og framkvæmt? _ Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami. 5Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu. 6Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: ,,Vertu hughraustur!`` 7Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: ,,Kveikingin er góð!`` Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki. 8En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns. 9Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: ,,Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!`` 10Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns. 11Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast. 12Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða. 13Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ,,Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!`` 14Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael. 15Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir. 16Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael. 17Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, Drottinn, mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá. 18Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. 19Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum, 20svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið. 21Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar. 22Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er! 23Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari. 24Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs! 25Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó. 26Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: ,,Hann hefir rétt fyrir sér``? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt. 27Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: ,,Sjá, þar kemur það fram!`` og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða. 28Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér. 29Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.
Copyright information for Icelandic